Friðrik 2. Danakonungur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Friðrik 2. (1534 - 1588) var konungur Danmerkur 1559 - 1588.
Friðrik var sonur Kristjáns 3.. Hann náði undir sig Dithmarschen í Norður-Þýskalandi 1559 og áhugi hans á að ná Svíþjóð aftur undir danskt vald leiddi hann út í Sjö ára stríðið við Svía 1563 - 1570. Hann sýndi í fyrstu myndugleik en ærinn stríðskostnaður leiddi til þess að hann varð að fá fornan óvin sinn, Peder Oxe (1520 - 1575), til að rétta af fjárhag ríkisins. Oxe hækkaði m.a. Eyrarsundstollinn, en fyrir tekjurnar af honum lét hann reisa Krónborgarhöll og Friðriksborgarhöll.
Ungur varð Friðrik ástfanginn af hefðarmeyjunni Önnu Hardenberg, en hún hryggbraut hann og giftist síðar Oluf Mouritzen Krognos ríkisráði.
Friðrik 2. varði töluverðu fé í stjörnufræðinginn Tycho Brahe til að hann gæti unnið að fræðum sínum á eyjunni Hveðn, en þar dvaldi Brahe að Stjörnuborg við ýmsar athuganir á gangi himintunglanna.
Friðrik 2. þjáðist lengi vel af malaríu og á síðustu æviárum sínum jukust þjáningar hans mjög. Í líkræðu sinni yfir Friðriki sagði presturinn og sagnfræðingurinn Anders Sørensen Vedel að Friðrik hefði flýtt dauða sínum með drykkjuskap.
Fyrirrennari: Kristján 3. |
|
Eftirmaður: Kristján 4. |