Beiting (siglingar)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Beiting í siglingum lýsir því hvernig seglum er hagað eftir vindi á seglskútum. Kulborð er sú hlið bátsins sem snýr að vindi og hléborð sú sem snýr undan. Beitt er á stjórnborða þegar bóman er út af bakborða (þegar bakborði er hléborðs) og öfugt.
Að snúa bátnum þannig að vindurinn komi á aðra hlið bátsins en áður er kallað að venda. Stagvending er þegar vent er upp í vindinn en kúvending þegar vent er undan vindi.
Þegar siglt er skáhallt á móti vindi er talað um að sigla beitivind, beita upp í vindinn eða bíta. Þá er bóman eða ráin höfð eins samsíða bátnum og hægt er. Ef beitt er of stíft upp í vindinn fer vindurinn úr seglunum og þau blakta. Vissar gerðir seglskipa (s.s. skonnorta og slúppa) eiga betra með að sigla beitivind en aðrar. Mjög erfitt er að sigla beitivind með þverseglum.
Siglt er hliðarvind eða hliðarkylju þegar vindurinn kemur á bátinn á hlið. Þá er bóman höfð í um 30° horni miðað við bátinn.
Lens eða undanhald er þegar vindurinn kemur aftan á bátinn. Þegar siglt er lens er bóman höfð í 90° horni miðað við bátinn. Beggja skauta byr er þegar vindur kemur beint aftan á bátinn. Á bátum með seglin langsum er þá hægt að beita þeim sitt á hvað þannig að t.d. framsegl og stórsegl standa út af sínu hvoru borðinu og bæði skautin fá því jafnmikinn vind.