Brattahlíð
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brattahlíð var bær Eiríks rauða í Eystribyggð á Grænlandi. Samkvæmt Grænlendinga sögu og Landnámubók byggði Eiríkur Bröttuhlíð um 985. Þar er nú bærinn Qassiarsuk og er um 5 km frá flugvellinum í Narsarsuaq handan Eiríksfjarðar og um 40 km norðaustan við aðalþorpið Narsaq. Bæjarstæðið er í góðu skjóli vestan við Eiríksfjörð um það bil 96 km frá hafi. Afkomendur Eiríks bjuggu á Bröttuhlíð fram yfir miðja 15 öld.
Fyrsta kirkja Grænlands (og þar með vesturheims) var Þjóðhildarkirkja stóð hér. Fornleifafræðingar hafa stundað umfangsmiklar rannsóknir við Bröttuhlíð. Auk Þjóðhildarkirkju hefur meðal annars verið grafið upp fjós sem var 53 metra langt og 14 metra breitt með 1,5 metra þykkum hlöðnum steinveggjum og þar fyrir utan torfhleðsla til einangrunar. Flórinn var lagður með stórum steinhellum og skilveggir milli bása gerðir úr stórum flötum steinum fyrir utan einn þar sem herðablað úr hval var notað.
Land Bröttuhlíðar er enn eitt besta landbúnaðarsvæði Grænlands með mikla gróðursæld. Þar og á nágrannabæjum er nú stunduð mikil sauðfjárrækt eins og á dögum Grænlendinga hinna fornu.
Þing Grænlendinga var haldið á Bröttuhlíð en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var haldið.