Jón Ásgeir Jóhannesson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jón Ásgeir Jóhannesson (f. 1968) er íslenskur kaupsýslumaður og forstjóri Baugs Group.
Hann útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands 1989 og stofnaði sama ár fyrstu Bónus-verslunina með föður sínum Jóhannesi Jónssyni.
Jón Ásgeir gerðist forstjóri Baugs Group árið 1998 og jók umsvif fyrirtækisins til muna. Hann hætti sem forstjóri í maí 2002 og gerðist stjórnarformaður fyrirtækisins í staðinn, en tók aftur við forstjórastólnum í nóvember sama ár.
Í árslok 2003 hafði fyrirtækið vaxið svo undir forystu Jóns Ásgeirs, að ekkert annað íslenskt fyrirtæki hafði jafnmikil umsvif erlendis, auk þess sem það var orðið stærsta fyrirtæki á Íslandi.
Þann 17. ágúst 2005 voru Jón Ásgeir og fleiri ákærðir fyrir 40 brot á lögum um bókhald og fleira. Flest brotin varða millifærslur milli hans sjálfs og fyrirtækisins. Hæstiréttur vísaði málinu aftur til Héraðsdóms Reykjavíkur haustið 2005 vegna formgalla. Ekki sér fyrir endann á Baugsmálinu snemma árs 2007.