Óspakseyri
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Óspakseyri í Bitrufirði á Ströndum er landnámsjörð Þorbjarnar bitru en á söguöld bjó þar ójafnaðarmaðurinn Óspakur sem jörðin dregur nafn af. Jörðin er kölluð Eyri í daglegu tali. Á Óspakseyri hefur staðið kirkja frá því snemma á öldum. Kirkjan sem stendur þar í dag var reist árið 1939. Löggilt höfn er á Óspakseyri en engin mannvirki hafa þó verið reist þar henni tengd, þar er ekki bryggja. Þingstaður var á Eyri og Ungmennafélagið Smári í Bitrufirði byggði þar lítið samkomuhús, sem enn stendur, árið 1927, sama ár og félagið var stofnað. Á Óspakseyri var rekið sláturhús til margra ára. Þar var lengi verslun Kaupfélags Bitrufjarðar, en henni og sláturhúsinu hefur hvoru tveggja verið lokað og Kaupfélagið var lagt niður árið 2005.