Bjarni Thorarensen
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bjarni Thorarensen (1786-1841) fæddist á Brautarholti á Kjalarnesi. Móðir Bjarna var Steinunn, dóttir Bjarna Pálssonar landlæknis og faðir hans Vigfús Þórarinsson. Vigfús varð sýslumaður í Rangárvallasýslu 1789 og sat á Hlíðarenda í Fljótshlíð og er Bjarni alinn þar upp. Hann lærði hjá einkakennurum undir stúdentspróf og lauk því 15 ára. Sigldi hann síðan til Kaupmannahafnar og lauk lagaprófi frá Hafnarháskóla er hann stóð á tvítugu. Bjarni mun hafa hlustað á einhverja af þeim fyrirlestrum sem Henrich Steffens hélt í Kaupmannahöfn 1802-1803 um rómantísku stefnuna og hann hreifst af skáldum er ortu í hennar anda, svo sem danska skáldinu Adam Oehlenschlager og þýska skáldinu Schiller. Bjarni sneri til Íslands 1811 og varð nokkru síðar dómari í landsyfirréttinum. Eftir nokkrar raunir í kvennamálum kvæntist hann Hildi, dóttur Boga Benediktssonar úr Hrappsey. Bjarni var skipaður amtmaður fyrir norðan og austan árið 1833. Flutti hann þá að Möðruvöllum í Hörgárdal og bjó þar til dauðadags. Þrátt fyrir miklar embættisannir orti Bjarni talsvert og var hann helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi.
[breyta] Heimild
- Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.