Hvamm-Sturla
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hvamm-Sturla, sem svo var nefndur, hét réttu nafni Sturla Þórðarson og bjó í Hvammi í Dölum. Hann var fæddur árið 1116 og dó 23. júlí 1183. Foreldrar hans voru Vigdís Svertingsdóttir og Þórður Gilsson goði á Staðarfelli í Dölum. Sturla var goði eins og faðir hans. Hann var stórbokki og lét aldrei sinn hlut fyrir nokkrum manni. Hann stóð í illdeilum við Pál Sölvason prest í Reykholti (f. 1118, d. 1185) og gekkst höfðinginn Jón Loftsson í Odda fyrir sáttum þeirra með því að bjóða Sturlu að fóstra yngsta son hans, Snorra.
Sturla var tví- eða þrígiftur og átti að auki börn með fleiri konum. Síðasta kona hans var Guðný Böðvarsdóttir frá Görðum á Akranesi. Hún var móðir bræðranna Þórðar, Sighvatar og Snorra, sem mest koma við sögu í upphafi Sturlungaaldar.