Inflúensa
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Inflúensa, eða flensa, er smitsjúkdómur sem leggst á fugla og spendýr, og í spendýrum eru koma helstu einkenni fram í efri öndunarfærum og í lungum. Sjúkdóminn má rekja til RNA veiru (af Orthomyxoviridae fjölskyldunni).
Algengustu einkenni í mönnum eru sótthiti, hálsbólga og eymsli í hálsi, höfuðverkur, vöðvaverkir, hósti og þreyta.
Þótt ýmsir öndunarfærasjúkdómar séu í daglegu tali nefndir flensa er raunveruleg inflúensa talsvert frábrugðin venjulegu kvefi, og mun alvarlegri. Einstaklingar sem smitast af inflúensu þjást oft af miklum sótthita í eina til tvær vikur, og ef ekki er brugðist rétt við, eða ef einstaklingurinn er veikburða fyrir, getur sjúkdómurinn leitt til dauða.
Inflúensa er bráðsmitandi og berst um heiminn í árvissum flensufaröldrum. Þegar flensufaraldur geisar yfir látast alla jafna milljónir af völdum sjúkdómsins, en í hefðbundnu árferði nemur tala látinna hundruðum þúsunda á ári. Á 20. öldinni hafa þrír flensufaraldrar geisað, í öll skiptin í kjölfar stökkbreytingar á veirunni sem dró úr getu fólks til að berjast við sjúkdóminn.
Sú tegund influensu sem líklegast er að geti brotist út í alvarlegan alheimsfaraldur um þessar stundir nefnist H5N1, en þessi influensutegund er betur þekkt sem fuglaflensa.