Króksfjarðarnes
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Króksfjarðarnes er bær og verslunarstaður á sunnanverðum Vestfjörðum og stendur á nesinu milli Króksfjarðar og Gilsfjarðar. Króksfjarðarnes fékk verslunarréttindi árið 1895. Í Króksfjarðarnesi starfar Kaupfélag Króksfjarðar og þar er starfandi sláturhús. Einnig er þar félagsheimilið Vogaland sem byggt var 1958 og þar er útibú frá Sparisjóði Vestfirðinga. Króksfjarðarnes hefur hins vegar aldrei verið þorp eða þéttbýlisstaður, þótt margir Íslendingar standi í þeirri meiningu.
Í Landnámu kemur fram að Þórarinn krókur hafi numið land við Króksfjörð og búið að Króksfjarðarnesi, en auk þess kemur staðurinn við sögu í Gull-Þórissögu.