Neskaupstaður
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Neskaupstaður er um 1400 manna bær við Norðfjörð á Austfjörðum og sá fjölmennasti í sveitarfélaginu Fjarðabyggð.
Bærinn var gerður að sérstökum hreppi, Neshreppi, árið 1913 en hafði fram að því heyrt undir Norðfjarðarhrepp. Neshreppur fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1929 og hét eftir það Neskaupstaður. Norðfjarðarhreppur sameinaðist Neskaupstað á ný 11. júní 1994, að þessu sinni undir merkjum Neskaupstaðar. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Neskaupstaður Eskifjarðarkaupstað og Reyðarfjarðarhreppi undir nafninu Fjarðabyggð
Bæjarstæðið er merkilegt fyrir þær sakir að vera mjög langt, þar eð bærinn liggur meðfram sjónum og nær um það bil 100 metra upp í hlíðina fyrir ofan á 6 km löngum kafla.
Síldarvinnsla Neskaupstaðar er stærsta fyrirtækið í bænum.
Í bænum er íþróttafélagið Þróttur sem hefur náð hvað bestum árangri í blaki. Fjarðabyggð er með sameiginlegt lið í 1. deild karla í knattspyrnu. Þar er einnig starfræktur golfklúbburinn GN (Golfklúbbur Norðfjarðar). Klúbburinn starfrækir 9 holu golfvöll, Grænanesvöll.
Hverja verslunarmannahelgi er haldin þar hátíð, Neistaflug.