Æxlun
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Æxlun eða tímgun er líffræðilegt ferli þar sem nýjar lífverur verða til. Æxlun er einn af grundvallarþáttum lífs á jörðunni; hver einasta lífvera er afurð æxlunarferlis. Þekktum æxlunaraðferðum er gróflega skipt í tvennt: kynæxlun og kynlausa æxlun.
Með kynlausri æxlun getur einstaklingur fjölgað sér án aðstoðar annars einstaklings sömu tegundar. Skipting gerilfrumu í tvær dótturfrumur er dæmi um kynlausa æxlun. Kynlaus æxlun er ekki bundin við einfruma lífverur: Flestar jurtir geta til dæmis æxlast kynlaust.
Kynæxlun krefst aðkomu tveggja einstaklinga, venjulega af gagnstæðu kyni. Venjuleg æxlun meðal mannfólks er algengt dæmi um kynæxlun. Almennt séð æxlast flóknari lífverur með kynæxlun en kynlaus æxlun er fremur á færi lífvera með einfaldari byggingu.