Óákveðið fornafn
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Óákveðin fornöfn eru allmörg en flest þeirra finnast í þessari vísu:
Annar, fáeinir, enginn, neinn,
ýmis, báðir, sérhver,
hvorugur, sumur, hver og einn,
hvor og nokkur, einhver.
Auk þessara orða má nefna annar hver, annar hvor, annar tveggja, hvor tveggja, slíkur, þvílíkur, allur, sjálfur, samur (sami).
[breyta] Hvor tveggja
Hvor tveggja beygist þannig að fyrri hlutinn (hvor) beygist eins og spurnarfornafn en tveggja er óbeygt. Til er gamla óákveðna fornafnið hvortveggi (í einu orði) þar sem fyrri liðurinn beygist eins og í hvor tveggja en seinni liðurinn eins og veikt lýsingarorð.
[breyta] Einhver og nokkur
Í nefnifalli og þolfalli í hvorugkyni eintölu hafa einhver og nokkur tvímyndir: eitthvert/eitthvað; nokkurt/nokkuð. Myndirnar eitthvað og nokkuð á eru sérstæðar eins og sést á þessu dæmi: „Eitthvað er á seyði, sérðu nokkuð?“
Annar hver er notað um annan hvern af þrem eða fleiri: Hann kemur alltaf annan hvern dag. Annar hvor er notað um annan af tveim: „Ég fæ annan hvorn strákinn, Jón eða Svein til að vinna hjá mér.“
[breyta] Heimildir
- Bjarni Ólafsson. Íslenskur málfræðilykill. Mál og menning, 1995. ISBN 9979308745
- Björn Guðfinnson. Íslensk málfræði. Námsgagnastofnun, án árs.
- Þórunn Blöndal. Almenn málfræði. Mál og menning, 1985.