Fritz Haarmann
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fritz Haarmann (1879 - 15. apríl 1925) einnig þekktur sem Vampíran frá Hannover eða Slátrarinn frá Hannover var þekktur raðmorðingi fæddur í Hannover í Þýskalandi.
Fritz hafði á unga aldri dálæti á því að klæða sig upp sem stelpa. Hann framdi fyrsta afbrot sitt ungur að aldri (17 ára) og faðir hans (sem hann hafði óbeit á) vildi koma honum fyrir á hæli, en læknar þar sáu enga ástæðu til að halda honum, svo ekkert varð úr því. Hann gekk þá í herinn og gekk þar vel og var hrósað fyrir frammistöðu.
Árið 1903 sneri hann aftur til Hannover og byrjaði feril sinn sem smáglæpamaður. Hann féll vel inn í hóp glæpamanna og var vinsæll á meðal þeirra. Hann naut einnig nokkurrar velvildar hjá lögreglunni sem hafði handtekið hann nokkrum sinnum fyrir smáglæpi.
Eftir að honum var sleppt úr fangelsi árið 1918 vann hann fyrir sér á svarta markaðinum við að selja kjöt, föt og annan varning. Hann hélt sig mikið við járnbrautarstöðina þangað sem flóttamenn og strokubörn sóttu helst til. Hann hafði sérstakan áhuga á ungum strákum þar. Hann safnaði upplýsingum handa lögreglu um flóttamenn og strokulýð og aflaði sér þannig mikils trausts hjá lögreglunni sem í staðinn leit framhjá svartamarkaðsbraski hans. Hann varð þá þekktur fyrir að selja afar ódýran varning og keyptu margir kjöt af honum. Hann tældi marga stráka heim til sín með súkkulaði og góðgæti. Heimili hans var oft rannsakað af lögreglunni vegna barnshvarfa í nágrenninu en lögreglan sá aldrei ástæðu til að aðhafast meira.
Síðar kynntist Fritz Hans Graan nokkrum, sem var karlkyns hóra. Þeir hjálpuðust að við að tæla drengi til Fritz. Þegar nokkuð mörg börn höfðu horfið og fólk var farið að vera vart um sig, stigmögnuðust sögusagnir um vampírur og skrímsli. Nokkrir fóru með kjötið sem Fritz seldi þeim til lækna og sérfræðinga til þess að láta greina kjötið vegna gruns um að þar væri á ferðinni mannakjöt, en læknarnir héldu því ávallt fram að um svínakjöt væri að ræða.
Það var ekki fyrr en 1924 að mannabein fundust við bakka Leine og stuttu síðar var Fritz staðinn að verki við að ræna ungum dreng. Hann viðurkenndi allt samstundis og lýsti aðferðum sínum fyrir lögreglu. Hann tældi unga drengi heim til sín, reif háls þeirra í sundur með tönnunum og hjó síðan líkamann í sundur og seldi það kjöt sem hann ekki át sjálfur ásamt fötunum þeirra. Afganginum henti hann í ána Leine. Við uppgröft við bakka Leine fundust hundruð mannabeina. Fritz var dæmdur sekur ásamt Hans sem hlaut lífstíðar fangelsisdóm en sjálfur var Fritz tekinn af lífi. Hann var fundinn sekur um 27 morð. Sjálfur vissi hann ekki fjöldann, en talið er að morðin hafi verið um hundrað talsins.