Fyrsta málfræðiritgerðin
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fyrsta málfræðiritgerðin er sú fyrsta af fjórum íslenskum ritgerðum um málfræði í Ormsbók Snorra-Eddu. Nafn sitt fær hún einfaldlega vegna þess að hún er fremst þessara fjögurra í handritinu. Hún þykir einnig merkust ritgerðanna fjögurra, er að öllum líkindum frá miðri 12. öld og eftir óþekktan höfund sem kallaður hefur verið Fyrsti málfræðingurinn. Í ritgerðinni er gerð tilraun til að fella latneska stafrófið að íslenska hljóðkerfinu eins og það var þá, auk þess sem reynt er að sýna fram á nauðsyn samræmdrar stafsetningar. Auk þess að vera ómetanleg heimild um sögu íslenska hljóðkerfisins, beitir höfundur aðferðum sem ekki tíðkuðust í hljóðkerfisfræði fyrr en á 20. öld, þ.e.a.s. hann notar svokölluð lágmarkspör til að sýna hvaða hljóð eru merkingargreinandi.