Henri Becquerel
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Antoine Henri Becquerel (15. desember, 1852 – 25. ágúst, 1908) var franskur eðlisfræðingur, nóbelsverðlaunahafi og einn þeirra sem uppgötvaði geislavirkni.
Becquerel fæddist í París inn í fjölskyldu vísindamanna og telst sonur hans vera 4 ættliðurinn sem leggur fyrir sig vísindin. Hann lærði náttúruvísindi við École Polytechnique og verkfræði við École des Ponts et Chaussées. Árið 1892 varð hann þriðji fjölskyldumeðlimurinn til að verma stól yfirmanns eðlisfræðideildarinnar í náttúruvísindasafninu í Frakklandi (Muséum National d'Histoire Naturelle). 1894 varð hann síðan yfirverkfræðingur deildar sem hafði umsjón með brúar- og vegagerð í Frakklandi.
1896 uppgötvaði hann geislavirkni fyrir tilviljun þegar hann var að rannsaka fosfórljómun frá úransalti. Fyrir þessa uppgötvun deildi hann nóbelsverðlaununum 1903 í eðlisfræði með Pierre og Marie Curie og honum til heiðurs var SI-einingin fyrir geislavirkni, bekerel, nefnd eftir honum.