Hraun
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- „Hraun“ getur einnig átt við Hraun á Skaga.
Hraun er jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað kvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 - 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
[breyta] Tegundir hrauna
Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Felsísk (eða súr) hraun eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg.
[breyta] Storknun og myndanir
Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Kristallar verða einnig stærri þeim mun lengur sem kvikan er í kvikuhólfi.
Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru "Aa-lava" (apalhraun) og "Pahoehoe" (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.