Kolbeinsey
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kolbeinsey er lítill klettur, leifar af eldfjallaeyju, 105 km norðan við meginland Íslands og 74 km norðvestan við Grímsey. Eyjan er nyrsti punktur Íslands. Eyjan lætur hratt undan ágangi sjávar og hefur verið styrkt með steinsteypu vegna mikilvægis hennar við skilgreiningu landhelgi Íslands. Engu að síður má ætla að hún hverfi í hafið innan fárra ára enda hefur viðleitni til að styrkja eyjuna verið hætt vegna samninga um miðlínu við Dani.
Þegar eyjan var fyrst mæld árið 1616 var hún sögð 100 metra breið og 700 metra löng. 1903 var hún helmingi minni en það. Árið 2001 var hún aðeins 90 m² að stærð. Eyjan er allt að átta metrar að hæð yfir sjávarmáli. Þar var þyrlupallur en í mars 2006 kom í ljós að helmingur hans var hruninn.
Eyjunnar er fyrst getið í Landnámu þar sem talað er um siglingaleiðina til Grænlands. Hún er nefnd eftir Kolbeini Sigmundarsyni frá Kolbeinsdal í Skagafirði sem frá er sagt í Svarfdæla sögu. Hann er sagður hafa brotið skip sitt við Kolbeinsey og farist þar ásamt mönnum sínum.
[breyta] Tenglar
- Árni Hjartarson, Fróðleikur um Kolbeinsey á vef Orkustofnunar.