Margrét Sverrisdóttir
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Margrét Kristjana Sverrisdóttir (fædd í Reykjavík 8. september 1958) er íslenskur stjórnmálamaður sem starfaði með Frjálslynda flokknum til 29. janúar 2007.
Efnisyfirlit |
[breyta] Ætt
Faðir Margrétar er Sverrir Hermannsson, ráðherra og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, og síðar Frjálslynda flokksins, sem hann stofnaði. Móðir hennar er Gréta Lind Kristjánsdóttir. Margrét er gift Pétri S. Hilmarssyni og eiga þau tvö börn, Kristján Sævald (f. 1987) og Eddu (f. 1989).
[breyta] Menntun
Margrét er stúdent frá MR 1979 og lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1983, auk B.A. prófs í íslensku frá Háskóla Íslands.
[breyta] Starfsferill og félagsstörf
Margrét starfaði lengi við uppeldis- og umönnunarmál, meðal annars sem starfsmaður og síðar forstöðumaður félagsmiðstöðvanna Fellahellis og Vitans, og sat í stjórn Samtaka félagsmiðstöðva 1988-1993. Frá 1982 -1992 vann hún sem sjálfboðaliði að málefnum þroskaheftra og 1993-1998 var hún verkefnisstjóri menningarverkefnisins Ungt fólk í Evrópu.
Margrét tók sæti í framkvæmdastjórn Kvenréttindafélags Íslands árið 2000 og hefur verið varaformaður félagsins frá 2003. Frá 2003 hefur hún verið formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.
[breyta] Stjórnmálastarf
Árið 1998 varð Margrét framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins og varaþingmaður Reykjavíkur. Auk þess varð hún varaborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík í kosningum 2002 og aftur 2006.
Frá 1999-2002 sat hún í Ráðherraskipaðri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum og hefur verið fulltrúi í stjórnarnefnd Landspítala-Háskólasjúkrahúss síðan 2003.
[breyta] Átökin um Frjálslynda flokkinn
Í aðdraganda landsfundar Frjálslynda flokksins 2007 fór Margrét í launað leyfi frá störfum sem framkvæmdastjóri þingflokksins þann 18. desember 2006. Þingflokkurinn sagði að það væri til þess að hún gæti einbeitt sér að mögulegu framboði sínu á landsfundinum, en Margrét áleit að verið væri að halda henni í skefjum, fyrir áhrif félaga úr Nýju afli, sem nýlega voru gengnir í flokkinn. Bauð hún sig fram til varaformanns, gegn sitjandi varaformanni Magnúsi Þ. Hafsteinssyni, en tapaði kosningunni eftir harða baráttu og mikla kosningasmölun af beggja hálfu, laugardaginn 27. janúar. Á mánudegi, 29. janúar gaf hún út yfirlýsingu þess efnis að í „ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru ... á landsþingi flokksins [væri] ljóst [að hún teldi sér] ekki fært að starfa lengur innan vébanda hans.“ (1) Margrét gekk að því búnu úr flokknum ásamt hópi stuðningsmanna.
[breyta] Tenglar og heimildir
- Æviágrip Margrétar Sverrisdóttur
- Stuðningssíða Femínistafélags Íslands fyrir sveitarstjórnarkosningar 2006
- Blogg Margrétar, tengt heimasíðu Morgunblaðsins
- Vefur Reykjavíkurborgar: Margrét Sverrisdóttir
- Kvenréttindafélag Íslands
- Vísir.is: Margrét í leyfi fram yfir landsþing 13. desember 2006
- Vísir.is Guðjón býst við mótframboði frá Margréti 13. desember 2006
- Vísir.is: Margrét fer í leyfi á launum 15. desember 2006