Neytendasamtökin
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Neytendasamtökin eru íslensk frjáls félagasamtök neytenda. Hlutverk þeirra er að vernda hagsmuni íslenskra neytenda með því að framkvæma verð- og þjónustukannanir og birta niðurstöður sínar í fjölmiðlum. Félagsmenn teljast um 10.600 talsins. Samtökin halda úti skrifstofu í Reykjavík og á Akureyri.
Á vegum samtakanna koma út fjögur tölublöð Neytendablaðsins á ári. Þau gefa sömuleiðis út útgáfurit um ýmiss málefni sem neytendur varða. Félagsmenn fá einnig aðgang að læstri heimasíðu samtakanna þar sem ýmsar upplýsingar standa til boða og þeim er boðin lögfræðiþjónusta.
Formaður stjórnar er Jóhannes Gunnarsson og varaformaður er Ragnhildur Guðjónsdóttir.
Í lögum samtakanna segir að hlutverk þeirra sé[1]:
- að vinna að því að sjónarmið neytenda séu virt þegar ákvarðanir eru teknar eða reglur settar er varða hagsmuni neytenda,
- að annast útgáfu-, rannsóknar-, ráðgjafa- og fræðslustarfsemi til þess að auka skilning á hagsmunamálum neytenda, þar á meðal að auka verð- og vöruþekkingu þeirra,
- að styðja réttmætar kröfur einstakra neytenda og berjast fyrir því að réttur neytenda sé virtur,
- að vinna að umbótum á löggjöf til hagsbóta fyrir neytendur.
[breyta] Saga
Neytendasamtökin voru stofnuð að frumkvæði Sveins Gunnars Ásgeirssonar lögfræðings 26. janúar 1953. Eitt fyrsta málið sem laut að samtökin var Hvile-Vask málið sem snerist um auglýsingu á dönsku „undra“ þvottefni. Efnafræðingar á vegum samtakanna efnagreindu þvottefnið og komust að þeirri niðurstöðu að það væri á engann hátt frábrugðið öðrum að því undanskildu að magn bleikiefnis var meira en í öðrum þvottefnum. Samtökin sendu því frá sér fréttatilkynningu þar að lútandi og var í kjölfarið stefnt af innflytjanda þvottaefnisins. Neytendasamtökin töpuðu málinu fyrir sjó- og verslunardómi vorið 1957 en áfrýjuðu til hæstarétts og unnu málið 1959.
[breyta] Heimildir
- ↑ Lög Neytendasamtakanna. Skoðað 30. janúar, 2007.