Samtök hernaðarandstæðinga
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samtök hernaðarandstæðinga (áður Samtök herstöðvaandstæðinga) eru íslensk félagasamtök sem eru þekkt fyrir áralanga baráttu fyrir brotthvarfi bandaríska hersins frá Íslandi. Samtökin berjast gegn hervaldi og ofbeldi sem leið til að leysa deilumál þjóða. Þau krefjast þess einnig að Ísland segi sig úr NATO.
Forverar Samtaka herstöðvaandstæðinga voru Þjóðvarnarflokkurinn og Andspyrnuhreyfing gegn her í landi, bæði stofnuð 1953 og Samtök hernámsandstæðinga, stofnuð 10. september 1960 en þau lognuðust út af. Lengra aftur má rekja mótstöðu við inngöngu Íslands í NATO 1949 og varnarsamninginn sem gerður var við Bandaríkjamenn 1951. Samtök herstöðvaandstæðinga voru formlega stofnuð 1975 en hafði starfað síðan 1972. Mótmælagöngur sem farnar voru á árunum 1960-89 og nefndust Keflavíkurgöngur voru frægar um land allt. Meðal þjóðþekktra herstöðvaandstæðinga má nefna Einar Braga skáld og Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra.
Samtökin standa fyrir mótmælum eftir því sem þurfa þykir, m.a. gegn Íraksstríðinu.
Núverandi formaður samtakanna er Stefán Pálsson. Samtök hernaðarandstæðinga hafa aðsetur í Friðarhúsinu, Njálsgötu 87, 101 Reykjavík. Samtökin hafa frá stofnun gefið út tímaritið Dagfari þrisvar til fjórum sinnum á ári. Sökum brottfarar bandaríska herliðsins breyttu samtökin nafni sínu úr Samtök herstöðvaandstæðinga 26. nóvember 2006.
[breyta] Tengill
- Vefur félagsins
- Herstöðvaandstæðingar - kúgaður meirihlutahópur?, grein eftir Árna Hjartarson á vefritinu Múrnum.