Suðurnes
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Suðurnes er heiti sem haft er sem samheiti um þau byggðarlög sem eru á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, eða sunnan Straums eins og Suðurnesjamenn segja oft. Þessi byggðarlög eru Vatnsleysustrandarhreppur með þéttbýliskjarnann Voga, Reykjanesbær (sem var myndaður 1994 úr Innri- og Ytri Njarðvík, Keflavík og Höfnum en sameining var felld í öðrum byggðarlögum), Garður, Sandgerði og Grindavík. Á þessu svæði er landnám Steinunnar gömlu, frændkonu Ingólfs, en henni gaf hann Rosmhvalanes allt sunnan Hvassahrauns, eins og Landnáma kemst að orði. Einnig landnám Molda-Gnúps, sem nam Grindavík. Annars er frásögn Landnámu um þetta svæði mjög óljós.
Heildaríbúafjöldi svæðisins er rúmlega 17000 manns (2004). Í Vatnsleysustrandarhreppi um 850, í Reykjanesbæ um 11000, í Garði um 1400, í Sandgerði um 1500, í Grindavík um 2500. Lengst af á seinni hluta 20. aldar var heilt byggðarlag á Keflavíkurflugvelli þar sem bandarískir hermenn og fjölskyldur þeirra bjuggu og voru þar yfir 5000 manns þegar mest var, en Keflavíkurstöðin var lögð niður árið 2006.
Suðurnesin hafa löngum verið einhver mestu útgerðarpláss landsins vegna legu sinnar og nálægðar við fengsæl fiskimið. Dregið hefur úr útgerð og fiskvinnslu síðan kvótakerfið var tekið upp og hafa Suðurnesjamenn selt kvóta í miklum mæli til annarra landshluta. Einnig hafa þeir misst mikinn kvóta vegna sameiningar fyrirtækja. Mest útgerð og fiskvinnsla er í Grindavík, sem byggir afkomu sína nánast eingöngu á þessum atvinnugreinum og beinni og óbeinni þjónustu við þær. Svipað má segja um Sandgerði, en þó hefur dregið talsvert úr útgerð þar á allra síðustu árum. Í Garði er allmikil fiskvinnsla, en lítil sem engin útgerð er þaðan vegna skorts á hafnaraðstöðu. Reykjanesbær er að mestu þjónustu-, iðnaðar- og verslunarbær. Allt svæðið er eitt atvinnusvæði og vinnur fjöldi manns úr öllum byggðarlögunum á Keflavíkurflugvelli eða við Leifsstöð í þjónustu við flugið. Helst er að Grindavík skeri sig úr í þessu sambandi vegna þess að sá bær liggur fjærst hinum. Á undanförnum árum hefur hlutfall atvinnuleysis á Suðurnesjum verið viðvarandi hæst á landinu, sem stafar fyrst og fremst af samdrætti í umsvifum hersins á Keflavíkurflugvelli. Hefur það valdið Suðurnesjamönnum talsverðum búsifjum, en mun að líkindum þegar fram í sækir stuðla að breyttum atvinnuháttum með aukningu í iðnaði og þjónustu.
Á svæðinu eru átta grunnskólar, einn framhaldsskóli, eitt sjúkrahús, 7 kirkjur, eitt kvikmyndahús og auk þess fjöldi verslana og annarra þjónustufyrirtækja.