Íslenski hesturinn
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslenski hesturinn er hestakyn sem er talið vera komið af norska lynghestinum og mongólska przewalski hestinum. Víkingar fluttu með sér skandinavíska hesta þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en 1000 árum síðan.
Þar sem innflutningur hesta til landsins er bannaður hefur íslenski hesturinn verið einangraður í nokkuð langan tíma. Hann hefur því þróast óhað þróunum í öðrum heimsálfum.
[breyta] Gangtegundir
Íslenski hesturinn er þekktur fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir; fet, brokk, stökk, tölt og skeið. Tölt er einstakt fyrir íslenska hestinn.
[breyta] Litir
Íslenski hesturinn hefur mjög marga grunnliti og ennþá fleiri litasamsetningar. Frá leirljósu að jörpu, frá glóbjörtu til móvindótts. Í hrossum almennt eru 15 litasæti sem stjórna litaerfðum hestsins og er íslenski hesturinn talinn hafa að minnsta kosti 11 þeirra, sem eru eftirfarandi:
- A: Erfðavísir sem ákveður hvort hrossið verður brúnt eða rautt. Þetta sæti vísar einnig í jarpt og ákveður hvort jarpur litur komi fram eða ekki.
- B: Ákveður hvort húðin framleiði litarefni fyrir svart eða mórautt. Ekki er vitað um mórauð, íslensk hross svo það er gert ráð fyrir að öll íslensk hross hafi hér svart í sætinu.
- C: Ræður hvort litastyrkur í hárum hrossins verður fullur eða deyfður.
- Ch: Er erfðavísir fyrir glólitina svokölluðu; glóbrúnt, glómoldótt og glóbjart.
- Dn: Litasætið Dn ræður því hvort hárin verða bleikt eða óbleikt. Í þessu sæti ræðst einnig hvort hrossið verði bleikálótt eða ekki.
- E: Þetta sæti ræður því hvort hrossið verði svart eða rautt, ásamt A-sætinu. Þetta skilur því brún hross frá jörpu annars vegar og frá rauðum hins vegar.
- G: Tekur fram hvort hrossið verði grátt. Grá hross eru nefninlega fædd í sínum grunnlitum en grána síðan fljótt á bolinn þegar þau taka fyrstu vetrarhárin.
- Rn: Rn-sætið eða Roan-sætið tekur fram hvort hrossið verður litförótt eða ekki. Arfhrein litförótt fóstur deyja á meðgöngu og því fyrirfinnst enginn arfhrein litföróttur íslenskur hestur. Litförótt lýsir sér þannig að hrossið hefur sinn tiltekna grunnlit en verður árstíðabundið grár því undirhárin eru grá en vindhárin í grunnlit hestsin.
- Spl: Er erfða-sætið fyrir slettuskjóttan lit. Slettuskjótt hross eru hvít á neðri hluta líkama en hvítu skellurnar ná aldrei upp yfir hrygg.
- To: Tobiano-sætið, eða skjóttasætið ræður hvort hrossið verði skjótt eða ekki. Skjótt hross eru í raun litlaus á þeim skellum sem eru hvítar. Í húðinni á þessum stöðum eru engin litkorn í húðfrumunum.
- Z: Erfðavísir fyrir vindóttu er í þessu sæti. Svört hross verða móvindótt, jörp hross verða rauðvindótt, móálótt hross verða mósvindótt en hefur engin áhrif á rauð hross.
[breyta] Heimild
- Stefán Aðalsteinsson. 2001. Íslenski hesturinn - litir og erfðir. Ormstunga, Reykjavík.