Bólstaðarhlíðarhreppur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bólstaðarhlíðarhreppur var hreppur í Austur-Húnavatnssýslu fram til ársloka 2005. Aðalatvinnuvegur er landbúnaður. Fólksfjöldi 1. desember 2005 var 115. Hreppurinn náði yfir Blöndudal austan Blöndu, fremri hluta Langadals og Laxárdals og allan Svartárdal. Fremst í Svartárdal er Stafnsrétt, þangað sem rekið er fé af Eyvindarstaðaheiði. Yst í Svartárdal er félagsheimilið Húnaver, vígt 1957. Fyrir rúmum 80 árum (1924) var stofnaður í sveitinni Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sem æfði í fyrstu til skiptis á bæjunum en æfir nú í Húnaveri.
Hinn 1. janúar 2006 sameinaðist Bólstaðarhlíðarhreppur Sveinsstaðahreppi, Svínavatnshreppi og Torfalækjarhreppi og var hið nýja sveitarfélag kallað Húnavatnshreppur.