Einar Sigurðsson í Eydölum
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Einar Sigurðsson í Eydölum (1539 – 15. júlí 1626) var helsta trúarskáld sinnar tíðar. Hann var ungur settur til mennta og nam í Hólaskóla. Var hann alllengi prestur í Nesi í Aðaldal og bjó þar við heldur þröngan kost. Einar missti fyrri konu sína frá ungum börnum en kvæntist fljótlega aftur og átti margt barna með seinni konu sinni. Fljótlega eftir að Oddur sonur hans varð biskup í Skálholti veitti hann föður sínum Eydali í Breiðdal og við þann bæ er Einar jafnan kenndur. Eydalir voru gott brauð og þar stóð hagur hans með blóma. Hann var góðvinur Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum og naut þess í ýmsu. Biskup leitaði til Einars er hann fór að undirbúa útgáfu kristilegs kvæðasafns sem út kom 1612 og gengið hefur undir nafninu Vísnabók Guðbrands. Fyrsti hluti þeirrar bókar er að mestu eftir Einar. Hann kvað gjarnan trúarleg kvæði undir vikivakaháttum og er Kvæði af stallinum Kristí („Nóttin var sú ágæt ein...“) einna þekktast slíkra kvæða eftir hann.
[breyta] Heimild
- Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900. Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.