Eldfell
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eldfell er rétt rúmlega 200m hátt eldfjall á Heimaey í Vestmannaeyjaklasanum. Það myndaðist í eldgosi sem hófst 23. janúar 1973 og var opinberlega aflýst 3. júlí 1973, eldgos þetta er kallað Heimaeyjargosið.
[breyta] Yfirlit
Í upphafi gossins opnaðist stór sprunga frá norðri til suðurs á austasta hluta Heimaeyjar, og náði hún að höfninni í norðri en niður að Skarfatanga í suðri. Fljótlega minnkaði sprungan þó og megineldstöð varð þar sem nú stendur Eldfell. Gosefnið í upphafi gossins var nánast ísúrt, en þó varð það fljótlega basískt (SiO2 > 52%) eins og vaninn er í eldgosum á Atlantshafshryggnum.
Strax og tilkynning barst um að eldgos væri hafið hófst brottflutningur fólks af eynni. Af 5500 íbúum eyjarinnar voru um 4000 fluttir burt um nóttina, mestmegnis með skipum. Svo á næstu vikum voru búslóðir fólks fluttar burt að mestu, en hús tóku mjög flótlega að hverfa undir hraun.
Einungis einn maður dó í gosinu og var það af völdum flúoreitrunar - mikið af lífshættulegum lofttegundum kom upp úr jörðinni með vikrinum og gjóskunni. Mikil mildi þótti að ekki skyldi hafa farið verr, þar sem að sprungan kom upp rétt austan við austasta hús bæjarins (þó munaði ekki nema nokkrum metrum).
Um helmingur húsa bæjarins ýmist lenti undir hrauni eða á annan hátt eyðilagðist í gosinu, en uppbyggingin eftir gosið var mjög snögg.