Fjallkonan
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjallkonan er tákn eða kvengervingur Íslands. Kona kom fyrst fram sem kvengervingur landsins í kvæði Eggerts Ólafssonar, Ofsjónir 1752, en Fjallkonan var fyrst nefnd í kvæði Bjarna Thorarensen, Eldgamla Ísafold, og hefur verið algengt tákn í íslenskum skáldskap síðan. Elsta prentaða mynd af Fjallkonunni birtist í enskri þýðingu íslenskra þjóðsagna, Icelandic Legends (1864-1866), og þekkt er mynd Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal á minningarspjaldi um þjóðhátíðina 1874. Kona í gervi Fjallkonunnar kom fyrst fram á íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt fjallkonuljóð við hátíðahöld 17. júní.