Johann Gutenberg
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Johann Gutenberg eða Johannes Gensfleisch zur Laden zum Gutenberg (um 1398 – 3. febrúar 1468) var þýskur málmsmiður og uppfinningamaður sem öðlaðist frægð fyrir að finna upp aðferð við að nota lausa leturstafi í prentun. Árið 1448 fann hann upp meðal annars málmblöndu fyrir leturgerð, prentblek með olíu sem bindiefni, aðferð til að steypa leturstafina í nokkru magni með mikilli nákvæmni og nýja gerð prentvélar sem byggðist á vínberjapressu. Með því að sameina þessar nýjungar í nýtt framleiðslukerfi tókst honum að fjöldaframleiða bækur með miklum hraða og betri gæðum en þekktust í prentvinnslu fram að því. Prenttæknin olli byltingu í bókaútgáfu og þar með útbreiðslu hugmynda og lærdóms í allri Evrópu.
Árið 1455 sýndi Gutenberg fram á getu þessarar nýju tækni með því að prenta Biblíu í tveimur bindum og selja fyrir 300 flórínur eintakið. Þetta var umtalsvert lægra verð en handskrifuð Biblía kostaði áður. Í dag eru þekkt ellefu heil entök af Gutenbergbiblíunni. Biblían var þó ekki fyrsta prentaða bókin sem Gutenberg gaf út þar sem hann hafði áður gefið út Ars Minor, hluta af kennslubók Aelius Donatus í latneskri málfræði.