Skriðuklaustur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skriðuklaustur er menningar- og fræðasetur og fornfrægt stórbýli í Fljótsdalshreppi á Austurlandi. Þar var klaustur frá 1493 til 1552. Klaustureignirnar runnu við siðskiptin til Danakonungs og urðu að sérstöku léni, Skriðuklausturléni. Kirkja var á Skriðuklaustri frá 1496 til 1792.
Gunnar Gunnarsson settist að á Skriðuklaustri árið 1939. Hann lét reisa húsið, sem þar stendur árið 1939 en það er teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger. Húsið er 315 m² grunnfleti, tvær hæðir og ris, alls yfir 30 herbergi. Árið 1967 var annað íbúðarhús byggt á jörðinni og hlaut nafnið Skriða.
Gunnar ánafnaði ríkissjóði jörðinni með því skilyrði m.a., að nýting hennar yrði til menningarauka („Jarðeign þessi skal vera ævarandi eign íslenzka ríkisins. Hún skal hagnýtt á þann hátt, að til menningarauka horfi, t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili.“). Tilraunabú í sauðfjár- og jarðrækt á vegum RALA var rekið þar frá 1949 til 1990.
Stofnun Gunnars Gunnarssonar var sett á laggirnar árið 1997.
[breyta] Fornleifauppgröftur
Frá árinu 2002 hafa staðið yfir fornleifarannsóknir á klausturrústum undir stjórn Steinunnar J. Kristjánsdóttur, fornleifafræðings. Markmiðið er að kanna hvort byggingar og starfsemi þar hafi greint sig frá öðrum samtíða kaþólskum klaustrum í Evrópu, eins og haldið hefur verið fram.
[breyta] Heimildir
- Skriðuklaustur - Gunnarsstofnun. Skoðað 6. júlí, 2006.
- Skriðuklaustur Fljótsdalur. Skoðað 6. júlí, 2006.
- Greinin „Fritz Höger“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. júlí 2006.
- Skriðuklaustur - Híbýli helgra manna. Skoðað 22. febrúar, 2007.