Þjóðvegir á Ströndum
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þjóðvegur 1 - Hringvegurinn
Mörk Strandasýslu eru uppi á miðri Holtavörðuheiði. Þannig að 14 km af þjóðvegi nr. 1 eru innan marka sýslunnar. Frá sýslumörkum Borgarfjarðar og að Brú í Hrútafirði.
Þjóðvegur 61 - Djúpvegur
Vegurinn nær frá Brú í Hrútafirði, norður eftir ströndinni í Steingrímsfjörð og þaðan yfir Steingrímsfjarðarheiði vestur í Ísafjarðardjúp. Þaðan liggur vegurinn eftir Ísafjarðardjúpi að sunnanverðu til Ísafjarðarbæjar. Vegurinn er samtals 337 km og þar af eru 185 km innan marka Strandasýslu. Þar af eru 103 km lagðir bundnu slitlagi. Vegurinn liggur hæst á Steingrímsfjarðarheiði í 439 m hæð.
Þjóðvegur 59 - Laxárdalsheiði
Vegurinn liggur frá þjóðvegi 61 úr Hrútafirði skammt norðan við Borðeyri vestur í Hvammsfjörð og liggur hæst í um 200 m hæð. Vegurinn er 36 km og þar af eru 8 km innan marka Strandasýslu og er allur malarvegur.
Þjóðvegur 641 - Krossárdalsvegur
Vegurinn liggur frá þjóðvegi 61 um það bil miðja vegu í Bitrufirði að norðanverðu og liggur í vesturátt að Einfætingsgili í Krossárdal. Vegurinn er u.þ.b. 3 km og er malarvegur.
Þjóðvegur 69 - Steinadalsheiði
Vegurinn liggur úr botni Kollafjarðar frá þjóðvegi 61 yfir Steinadalsheiði og niður í Gilsfjörð sem sker sig inn úr botni Breiðafjarðar og liggur hæst í um 330 m hæð. Vegurinn er 18 km langur og þar af eru u.þ.b. 12 km innan marka Strandasýslu. Veginum er ekki haldið opnum yfir vetrarmánuðina og er malarvegur.
Þjóðvegur 605 - Tröllatunguheiði
Vegurinn liggur frá þjóðvegi 61, 7 km sunnan Hólmavíkur móts við býlið Húsavík. Vegurinn liggur yfir Tröllatunguheiði niður í Geiradal í Reyhhólahreppi og liggur hæst í um 420 m hæð. Vegurinn er 26 km langur og þar af eru u.þ.b. 15 km innan marka Strandasýslu. Veginum er ekki haldið opnum yfir vetrarmánuðina og er malarvegur.
Þjóðvegur 608 - Þorskafjarðarheiði
Vegurinn liggur suður af þjóðvegi 61 af miðri Steingrímsfjarðarheiði, 17 km úr botni Steingrímsfjarðar og liggur niður í Þorskafjörð. Vegurinn er 26 km langur og liggur hæst í 490 m hæð. U.þ.b. 14 km af leiðinni er innan marka Strandasýslu. Veginum er ekki haldið opnum yfir vetrarmánuðina og er malarvegur.
Þjóðvegur 645 - Drangsnesvegur
Vegurinn liggur frá þjóðvegi 61 í botni Steingrímsfjarðar við ósa Staðarár og liggur út norðanverðan Steingrímsfjörð eftir Selströnd og í gegnum Drangsnes og þaðan áfram út ströndina og inn Bjarnarfjörð að þjóðvegi 643 við brú Bjarnarfjarðaráar. Vegurinn er 34 km og þar af eru u.þ.b. 9 km lagðir bundnu slitlagi.
Þjóðvegur 643 - Norðurfjarðarvegur
Vegurinn liggur frá þjóðvegi 645 yfir Bjarnarfjarðarháls og áfram norður að býlinu Felli í Norðurfirði í Árneshreppi. Vegurinn er 90 km langur og liggur hæst yfir Veiðileysuháls í 220 m hæð. Vegurinn liggur á nokkrum stöðum í gegnum sæbrattar skriður og er seinfarinn malarvegur. Vegurinn er ekki hreinsaður af snjó á vetrum milli Bjarnarfjarðar og Gjögurs (62 km) nema mikið liggi við.
Þjóðvegur 647 - Munaðarnesvegur
Vegurinn liggur norður frá þjóðvegi 643 í botni Norðurfjarðar að bænum Munaðarnesi. Vegurinn er um 3 km og er malarvegur.
Þjóðvegur 649 - Ingólfsfjarðarvegur
Vegurinn liggur frá þjóðvegi 643 við bæinn Mela í Trékyllisvík yfir í Ingólfsfjörð og áfram norður í Ófeigsfjörð. Vegurinn er u.þ.b. 13 km langur malarvegur og tæplega fólksbílafær eftir að komið er í gegnum Eyri í Ingólfsfirði. Veginum er ekki haldið opnum yfir vetrartímann.
Nokkrir fleiri stuttir vegir eru í Strandasýslu s.s. inn í Miðdal í Steingrímsfirði, inn í Selárdal í Steingrímsfirði og inn í Sunndal og Goðdal í Bjarnarfirði.
Að auki er vegurinn inn Langadalsströnd við Djúp inn að Kaldalóni sem er tæpir 30 km í Strandabyggð.