Atli Harðarson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslensk heimspeki Heimspeki 20. aldar, Heimspeki 21. aldar |
|
---|---|
Nafn: | Atli Harðarson |
Fædd/ur: | 6. janúar 1960 í Biskupstungum á Íslandi |
Skóli/hefð: | Rökgreiningarheimspeki |
Helstu ritverk: | Afarkostir, Vafamál, Af jarðlegum skilningi |
Helstu viðfangsefni: | frumspeki, verufræði, þekkingarfræði, siðfræði, stjórnspeki, rökfræði |
Markverðar hugmyndir: | veraldarhyggja, náttúruhyggja, frelsi viljans, efahyggja, frjálshyggja |
Áhrifavaldar: | Thomas Hobbes, John Locke, David Hume, John Stuart Mill, Daniel Dennett, René Descartes, Gottfried Wilhelm Leibniz, Georg Wilhelm Friedrich Hegel, Platon, Aristóteles |
Atli Vilhelm Harðarson (fæddur 6. janúar 1960 í Biskupstungum á Íslandi) er íslenskur heimspekingur og framhaldsskólakennari.
Atli hefur lengst af kennt við Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og varð aðstoðarskólameistari skólans árið 2001. Hann kenndi við Menntaskólann á Laugarvatni árin 1996-1998. Hann hefur einnig fengist við rit- og fræðastörf og skrifað bækur um heimspeki og tölvunarfræði.
Efnisyfirlit |
[breyta] Menntun
Atli gekk í Barnaskóla Biskupstungna og lauk námi þaðan árið 1974. Hann lauk landsprófi árið 1975 frá Skálholtsskóla og nam eftir það við Menntaskólann á Laugarvatni þaðan sem hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðideild árið 1979. Að stúdentsprófi loknu hélt hann til Reykjavíkur í háskólanám. Hann nam heimspeki við Háskóla Íslands og lauk B.A.-gráðu í heimspeki og bókmenntum árið 1982. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna. Atli hlaut M.A.-gráðu í heimspeki frá Brown University í Providence á Rhode Island. Hann hefur einnig lokið námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands.
[breyta] Heimspeki
Í heimspeki fæst Atli einkum við stjórnspeki, þekkingarfræði og frumspeki auk sögu heimspekinnar. Sjálfur segir Atli á vefsíðu sinni að hugsun hans hafi orðið fyrir mestum áhrifum frá höfundunum René Descartes, Thomas Hobbes, G.W.F. Hegel og John Stuart Mill og frá rökfræði, rökgreiningarheimspeki og stýrifræði 20. aldar.
Á síðu sinni lýsir Atli einnig helstu tilraunum sínum í heimspeki. Þar kemur fram að skrif hans um frumspeki hafi aðallega snúist um samband sálar og líkama og gátuna um frelsi viljans en Atli hefur einnig skrifað um verufræði. Í bókinni Af jarðlegum skilningi frá árinu 2001 heldur Atli fram veraldarhyggju í anda skoska heimspekingsins Davids Hume, sem þó er færð í nútímahorf og í þekkingarfræði hefur efahyggja verið Atla hugleikin umfram önnur efni, en Atli telur að ómögulegt sé að hrekja heimspekilega efahyggju. Í stjórnspeki sækir Atli aðallega innblástur í enska frjálshyggju, einkum til sígildra höfunda á borð við John Locke og David Hume en einnig til fornra höfunda eins og Platons og Aristótelesar. Greinar Atla um sögu heimspekinnar hafa einkum fjallað um stjórnspeki Platons og Aristótelesar og um ýmis efni í heimspeki 17., 18. og 19. aldar.
[breyta] Helstu ritverk
- Af jarðlegum skilningi (2001)
- Kennslubók í tölvufræði fyrir framhaldsskóla (2001)
- Java - kennslubók í forritun fyrir framhaldsskóla (2000, 2. úrg. 2002)
- Vafamál (1998)
- Afarkostir (1995)
- Tölvukver (1992, 2. útg. 1994)
- (þýð.) David Hume Rannsókn á skilningsgáfunni (1988)
- (þýð.) John Locke Ritgerð um ríkisvald (1986)
[breyta] Heimild
- Vefsíða Atla Harðarsonar. Skoðað 13. október, 2005.
[breyta] Tenglar
- Vefsíða Atla Harðarsonar. Á síðunni er hægt að hægt að nálgast margar af ritgerðum og blaðagreinum Atla.
- Afarkostir. Greinasafn eftir Atla Harðarson aðgengilegt á heimasíðu Atla.
- Bloggsíða Atla Harðarsonar.