Guðbrandur Þorláksson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guðbrandur Þorláksson (1541(?) – 20. júlí 1627) var biskup á Hólum frá 8. apríl 1571 til dauðadags. Hann þótti vera einn mesti lærdómsmaður á Íslandi, einn af fulltrúum húmanismans og hafði mikinn áhuga á landafræði, stærðfræði og stjörnufræði. Hann stóð að umfangsmikilli prentun á Hólum og viðamikilli biblíuútgáfu með gerð Guðbrandsbiblíu árið 1584.
Guðbrandur var sonur séra Þorláks Hallgrímssonar, prests á Mel í Miðfirði, og Helgu Jónsdóttur. Hann lærði í Hólaskóla á árunum 1553 til 1559 og fór svo í Kaupmannahafnarháskóla árið 1560 sem þá var óvenjulegt, þar sem flestir Íslendingar fóru í háskóla í Þýskalandi. Eftir heimkomuna varð hann rektor í Skálholti og síðan prestur á Breiðabólstað í Vesturhópi áður en konungur gerði hann að biskup á Hólum eftir meðmæli frá Sjálandsbiskupi sem verið hafði kennari hans í háskólanum, þrátt fyrir að prestastefna á Íslandi hefði kjörið annan mann.
[breyta] Morðbréfamálið
Nokkru áður en Guðbrandur varð biskup fékk fjölskylda hans hann til að endurheimta jarðeignir sem fyrirrennari hans, Gottskálk Nikulásson Hólabiskup, hafði kúgað út úr afa hans, Jóni Sigmundssyni lögmanni eftir 1505. Guðbrandur fékk, samkvæmt umboðsbréfi Helgu Jónsdóttur, móður hans, ákveðinn hlut þeirra eigna sem hann næði að endurheimta. Honum varð í fyrstu vel ágengt, en þegar hann reyndi að ná tveimur jörðum í Skagafirði, sem afkomendur Kristínar Gottskálksdóttur héldu, lenti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni af Svalbarðsætt. Jarðirnar voru seldar Jóni og Markúsi Ólafssonum og um 1590 komu fram fjögur bréf sem hermdu morð upp á Jón Sigmundsson. Jón lögmaður stóð gegn því að Guðbrandur fengi bréfin dæmd fölsuð. Við svo búið beitti biskup prentverkinu á Hólum fyrir sig og lét prenta þrjá bæklinga máli sínu til stuðnings árin 1592, 1594 og 1608. Morðbréfamálið stóð allt til 1624 og lyktaði með því að Guðbrandi var gert að greiða 1000 ríkisdala sekt fyrir rógburð.
Fyrirrennari: Ólafur Hjaltason |
|
Eftirmaður: Þorlákur Skúlason |