Haraldur hárfagri
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Haraldur I Noregskonungur eða Haraldur hárfagri (850-933) var konungur yfir Noregi á Landnámsöld og er getið í mörgum Íslendingasögum, þ.m.t. Egils-sögu Skalla-Grímssonar en valdabarátta hans var helsta ástæða þess að Ísland og aðrar eyjar í Norðanverðu Vestur-Atlantshafi byggðust upp á þeim tíma.
Efnisyfirlit |
[breyta] Persóna Haralds
Það er ekki farið mjög mikið ofan í kjölinn á persónu hans í Íslendingasögunum, nema þá í hans eigin sögu, Haraldar sögu. Þar er honum lýst sem mjög ástríðufullum manni sem lét fátt stöðva sig í að ná því markmiði sínu að verða konungur yfir Noregi.
[breyta] Viðurnefni
Eins og kemur fram víða, þ.m.t. í Egils sögu og Haraldar sögu hárfagra var hann kallaður Haraldur lúfa á því tímabili sem hann stefndi að því að gerast einvaldur Noregs vegna þess að hann neitaði að skera hár sitt og skegg á meðan á því stóð. Þegar hann lauk því síðan var hár hans skorið og hann kallaður Haraldur hárfagri.
[breyta] Kynsæld Haralds
Eins og hver annar konungur átti Haraldur ekki í vandræðum með að nálgast hitt kynið og nýtti sér það í hvívetna. Hann eignaðist fjöldamörg börn með ótal frillum og leiða má líkur að því að ekki séu til heimildir um þau öll. Aðeins lítill hluti afkomenda hans voru réttmætir erfingjar hans af þeim völdum. Talið er að Þórður Víkingsson, sem var landnámsmaður á Alviðru í Dýrafirði, fæddur um 880, hafi verið sonur hans.
[breyta] Valdabarátta
Haraldar saga gerir valdasögu Haralds ef til vill best skil af flestum rituðum heimildum. Svo til í upphafi er sagt frá því þegar hann sendi menn sína til að bera bónorð sitt til Eiríks konungs af Hörðalandi en hann bað um hönd dóttur hans sem hét Gyða. Hún neitaði hins vegar að fórna meydómi sínum fyrir Harald þar sem henni þótti hann vera of mikill smákóngur og sagði einnig að hún myndi ekki játast honum fyrr en hann hefði náð að setja allan Noreg á sitt vald. Hirðmönnum Haralds fannst þetta vera óþarflega djarflega orðað hjá henni en Haraldur tók þessu svari hennar vel og sagði að það væri eflaust rétt hjá henni að hann hefði átt að vera byrjaður að leggja undir sig önnur fylki og sagði svo hin fleygu orð „Þess strengi eg heit og því skýt eg til guðs þess er mig skóp og öllu ræður að aldrei skal skera hár mitt né kemba fyrr en eg hefi eignast allan Noreg með sköttum og skyldum og forráði en deyja að öðrum kosti.“ og má segja að það hafi verið upphafið á sameiningu alls Noregs undir stjórn hans.
[breyta] Orustur og völd
Haraldur byrjaði eftir þetta að taka grimmilega yfir önnur fylki og hafði engin vettlingatök þar á, brenndi t.d. bæi. Þar á eftir skipaði hann jarla yfir hvert fylki sem skyldu fara með umboð fyrir hann og fengu þeir einn þriðja hlut skattpeninga síns fylkis og tóku yfir óðalsbæi. Þessar aðfarir að norrænu fólki neyddu marga til að flýja land, annað hvort til landa sem þegar var búið að nema eða ónuminna landa og eyja í Atlantshafi, s.s. Færeyja, Íslands, og Orkneyja. Haraldar saga og Egils saga greina síðan frá ýmsum orustum og bardögum þar til Haraldur hafði klárað ætlunarverk sitt, að ráða yfir öllum Noregi.
[breyta] Efri ár Haralds og dauði
Þegar Haraldur var kominn á efri ár dró hann sig í helgan stein og lét einn af sonum sínum, Eirík blóðöx, taka við ríkinu en þar sem Eiríkur átti bræður upphófst valdabarátta á milli þeirra eftir að Haraldur dó. Eiríkur hélt þó velli um sinn eða þar til hálfbróðir hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, sem hafði verið í fóstri hjá Aðalsteini konungi á Englandi, sigraði Hákon sem flúði sjálfur til Englands á meðan Hákon tók yfir Noreg.
[breyta] Tenglar
- Sögur Noregs konunga frá «Kulturformidlingen Norrøne Tekster og Kvad» í Noregi.
- Kóngar á tímum Egils sögu
- Vísindavefurinn: „Var Haraldur hárfagri bara uppspuni Snorra Sturlusonar?“