Hindúismi
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hindúismi (सनातन धर्म; venjulega kallað Sanātana Dharma, gróflega þýtt „trúin sem endist“) eru þriðju fjölmennustu trúarbrögð heims. Þau eru einnig meðal elstu trúarbragða sem enn eru iðkuð, komin af sömu rót og trúarbrögð Forngrikkja og Rómverja. Þau má rekja til indó-evrópsku Veda-menningarinnar um 2000 f.Kr.. Það er þó ekki svo að segja að hindúismi eins og við þekkjum hann sé það gamall, heldur hefur hann breyst mjög mikið í gegnum tíðina með hinum ýmsu breytingum á Indlandsskaganum þar sem þau hafa alltaf verið langmest iðkuð. Hindúismi er í raun frekar lífsviðhorf en trúarbrögð í hefðbundnum vestrænum skilningi. Í hindúisma eru mjög margir guðir og flokkast hann sem fjölgyðistrúarbrögð en mikilvægara atriði en að dýrka guðina er að lifa vel, og í gegnum endurholdganir, ná á endanum nirvana, endanlega stiginu þar sem einstaklingurinn losnar frá lífinu. Hindúismi nútímans er oftast flokkaður í saivisma, shaktisma, vaishnavisma og smarthisma. Upp úr hindúisma má svo segja að trúarbrögðin búddismi, jainismi og síkismi hafi sprottið en saman mynda þessi fjögur trúarbrögð flokk dharma trúarbragða.