Kristjánsborgarhöll
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kristjánsborgarhöll er stór höll á Slotsholmen í miðborg Kaupmannahafnar. Höllin er aðsetur danska þingsins. Hún var upphaflega reist á leifunum af Absalonshöll og síðar Kaupmannahafnarhöll sem hægt er að skoða í kjallaranum undir núverandi inngangi hallarinnar.
Upphaflega var höllin reist árið 1736 af Kristjáni VI í rokokóstíl með skeiðvelli, leikhúsi og hallarkirkju. Höllin kostaði gríðarlegt fé og íþyngdi veikum efnahag landsins þótt byggingin væri að mestu fjármögnuð með tekjum af Eyrarsundstollinum. Framkvæmdin kostaði í heild 2/3 hluta af árstekjum ríkisins, eða jafnmikið og allar eignir á Sjálandi. 1794 brann svo stór hluti hallarinnar þegar kviknaði í ofnunum sem sáu um upphitun hennar. Við það flutti konungsfjölskyldan í Amelíuborg, sem hefur verið opinber bústaður hennar síðan.
Önnur Kristjánsborg var svo byggð af C. F. Hansen 1806-1828. Ytri veggir gömlu hallarinnar voru notaðir en útliti hallarinnar var breytt til að samsvara smekk þess tíma og haft í nýklassískum stíl.
1850 fékk danska þingið nokkuð af þeim völdum sem konungsvaldið hafði haft áður og hóf starfsemi á sama stað í höllinni og núverandi þingsalur er staðsettur. 1894 brann höllin aftur og var endurreist 1906-1908, í þetta sinn í nýbarokkstíl, en með hluta af sömu útveggjum og fyrri hallirnar tvær.