Mörður Valgarðsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mörður Valgarðsson (um 1000) er ein af persónunum í Brennu-Njáls sögu. Hann bjó á Hofi á Rangárvöllum og var sonur hjónanna Valgarðs gráa og Unnar Marðardóttur, frændkonu Gunnars á Hlíðarenda, en hún var áður gift Hrúti Herjólfssyni vestur í Dölum. Mörður Valgarðsson er annálaður fyrir illmensku sína, undirferli og lygar og er illyrðið „lygamörður“ dregið af nafni hans.
Hann átti meðal annars þátt í vígi Gunnars á Hlíðarenda og Höskulds Hvítanessgoða. Einnig kom hann mjög við sögu í aðdraganda Njálsbrennu og lék stærsta hlutverkið í eftirmálunum, því að hann sótti brennumenn til saka á Alþingi.
Mörður kvæntist Þorkötlu Gissurardóttur hins hvíta og áttu þau að minnsta kosti tvö börn: Valgarð Marðarson, sem var skáld og bjó á Velli (fyrrum bæ Marðar gígju langafa síns) og Rannveigu Marðardóttur, sem giftist Daða Starkaðarsyni af ætt Svínfellinga.