Njáll Þorgeirsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Njáll Þorgeirsson, Brennu-Njáll, Njáll á Bergþórshvoli, var stórbóndi, lögspekingur og forspár maður, sem bjó á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum á síðari hluta 10. aldar og fram yfir 1010. Hann kom mjög við sögur um þetta leyti og virðist hafa verið áhrifamikill í landsmálapólitík síns tíma. Kona hans var Bergþóra Skarphéðinsdóttir og segir Njála að hún hafi verið drengur góður. Börn þeirra voru sex að sögn Njálu, 3 synir og 3 dætur. Skarphéðinn, Grímur og Helgi, sem jafnan eru kallaðir til samans Njálssynir og dæturnar Þorgerður og Helga, en sú þriðja er ekki nefnd. Komið hafa fram kenningar um það að Njáll og Bergþóra hafi átt tvær dætur er heitið hafi Þorgerður. Auk þess átti Njáll soninn Höskuld með Hróðnýju Höskuldsdóttur frá Keldum. Svo var fóstursonur Njáls og Bergþóru Höskuldur Hvítanessgoði Þráinsson.
Njáll og Gunnar á Hlíðarenda voru bestu vinir og varð þeim aldrei sundurorða. Konur þeirra hötuðust hins vegar, Bergþóra og Hallgerður, og létu þær árum saman drepa húskarla hvor fyrir annarri en Njáll og Gunnar bættu jafnan hina vegnu með vaxandi gjöldum. Þessi mannvíg ásamt fleiru drógu Njálssyni og Gunnar inn í atburðarás, sem þeir réðu ekki við og varð þeim að lokum öllum að bana.
Synir Njáls og Bergþóru voru kvæntir menn og áttu börn. Kona Skarphéðins var Þórhildur Hrafnsdóttir, kona Helga var Þórhalla Ásgeirsdóttir og kona Gríms var Ástríður af Djúpárbakka og var hann seinni maður hennar. Dætur þeirra hjóna voru einnig giftar. Þorgerður var gift Katli Sigfússyni í Mörk og Helga var gift Kára Sölmundarsyni. Síðari kona Kára var Hildigunnur Starkaðardóttir, sem áður var gift Höskuldi Hvítanessgoða, og var hún bróðurdóttir Flosa Þórðarsonar (Brennu-Flosa).
Endalok Njáls og Bergþóru, eftir að synir þeirra, ásamt Kára Sölmundarsyni og Merði Valgarðssyni, gerðu aðför að Höskuldi Hvítanessgoða og drápu hann, urðu þau, að Flosi Þórðarson á Svínafelli, sem var föðurbróðir Hildigunnar, ekkju Höskulds, hefndi fyrir vígið með því að brenna bæinn á Bergþórshvoli. Fórust þau þar hjónin og synir þeirra allir ásamt dóttursyni þeirra, Þórði Kárasyni. Kári Sölmundarson var sá eini, sem slapp úr brennunni. Hefndi hann brennunnar og sonar síns geypilega næstu árin á eftir.