Pákur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pákur eru slagverkshljóðfæri af þeirri gerð sem gefa frá sér einn tiltekinn tón. Sjaldan er talað um eina páku vegna þess að alltaf er leikið á tvær eða fleiri pákur saman. Páka er koparskál sem skinn er strengt yfir. Oftast er hægt að strekkja á skinninu með fótstigi og stilla þannig tónhæð hverrar páku. Á pákur er leikið með sérstakri gerð af kjuðum, pákukjuðum. Þeir eru með mjúkt höfuð, oft með trékjarna og feltfóðri, handfangið er vanalega úr viði. Mismunandi kjuðar eru notaðir, jafnvel í sama verki, til að ná fram mismunandi tónblæ úr hljóðfærinu. Pákur þróuðust út frá trumbum, sem voru notaðar í hernaði, og urðu fast hljóðfæri í hljómsveitum á 16. öld og hafa verið það síðan. Á barokktímanum mynduðu pákur, ásamt trompetum, grunninn að spunahljómsveitum sem spiluðu, venjulegast utandyra, við viss tilefni í hirðinni. Algengast er að notaðar séu tvær pákur, önnur stillt á grunntón en hin á fortón tóntegundarinnar sem verkið er í. Frá því á rómantíska tímabilinu (og raunar að einhverju leyti fyrr) hefur þeim þó farið fjölgandi og venjulegt er orðið að hafa fjórar pákur í hveri hljómsveit. Þó það sé mjög sjaldgæft hafa verið samin nokkur verk fyrir pákur og hljómsveit, til dæmis samdi Philip Glass árið 2000 konsert fyrir tvo pákuleikara og hljómsveit, þar sem hvor pákuleikari notar sjö pákur.