Þór (íþróttafélag)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
[breyta] Saga íþróttafélagsins Þórs
Íþróttafélagið Þór var stofnað 6. júní 1915, og er elsta starfandi íþróttafélag á Akureyri. Stofnandi félagsins var Friðrik Einarsson og var einnig fyrsti formaður þess. Friðrik var tæplega 15 ára gamall þegar hann stofnaði félagið, ásamt nokkrum öðrum 12-15 ára drengjum á Oddeyri. Í fyrstu hét félagið Íþróttafélag Oddeyringa, Þór. Drengirnir hófu æfingar strax við stofnun, undir stjórn Friðriks sem var óumdeildur leiðtogi hópsins.
Samkvæmt fyrstu lögum Þórs, sem samþykkt voru á stofnfundinum 6. júní 1915, gátu aðeins þeir orðið félagar sem voru á aldrinum 10-15 ára. "Undantekning verður veitt ef það er samþykkt á fundi" segir í lögunum. Aðeins drengir voru í félaginu framan af en fyrstu stúlkurnar gengu í Þór 14. janúar 1934, fimm talsins. Heimildir herma að innganga þeirra hafi mætt nokkurri andstöðu.
Athygli vekur að í þessum fyrstu lögum er skýrt tekið fram að þeir sem gangi í félagið megi hvorki neyta áfengis né tóbaks og þeir sem brjóta af sér þrisvar, svo upp komist, eru burtrækir úr félaginu. Þá er kveðið á um það að þeir, sem hylma yfir með félaga sem brýtur af sér, séu jafnsekir.