Brúará
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúará er næst-stærsta lindá Íslands, og rennur hún um á mörkum Biskupstungna og Grímsness. Upptök sín hefur áin í Laugardalsfjöllum, Úthlíðarhrauni og á hálendinu þar fyrir innan, í svokölluðum Brúarskörðum. Skörðin eru í raun gil þar sem vatnið seytlar út úr berginu beggja megin og myndar litla fossa ofan í ánna, sem þó telst bara lækur á þessum stað.
Nafn sitt dregur áin af því að í henni var steinbogi sem fólk gat gengið yfir, eins konar náttúruleg brú. Sögusagnir segja þó að vinnumaður í Skálholti hafi brotið brúnna niður, svo umrenningar ættu ekki eins auðvelda leið að höfuðbólinu.
Ágætis fiskgegnd er í ánni og er vinsælt að veiða í henni rétt fyrir ofan Spóastaði.
Brúará rennur loks í Hvítá milli Skálholts og Sólheima, á móts við Vörðufell á Skeiðum.