Esja
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Esja | |
---|---|
![]() Esjan séð frá Reykjavík |
|
Hæð: | 914 metrar yfir sjávarmáli |
Staðsetning: | Kjalarnes |
Fjallgarður: | Enginn |
- Einnig er til kvenmannsnafnið Esja.
Esja (oft skrifað með greini, Esjan og er oftast þannig í daglegu talmáli) er fjall sem stendur við Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Útsýni yfir fjallið hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu, og til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum í fjallinu. Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Esja er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi.
[breyta] Nafnið „Esja“
Í Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.