Gallastríðin
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Þessi grein fjallar um átökin milli Rómverja og Galla. Um rit Júlíusar Caesars, sjá Gallastríðið.
Gallastríðin voru átök milli rómverskra hersveita undir stjórn Júlíusar Caesars og gallískra þjóðflokka um miðja 1. öld f.Kr. Rómverjar gerðu innrás í Gallíu árið 58 f.Kr. Síðar gerðu þeir einnig smærri innrásir í Britanniu og Germaniu en háðu ekki langvarandi stríð á þeim vígstöðvum. Gallastríðin náðu hámarki árið 52 f.Kr. í orrustunni við Alesiu, þar sem rómverski herinn hafði yfirburðarsigur og lagði í kjölfarið Gallíu undir Rómaveldi. Átökunum lauk ári síðar.
Caesar hélt því fram að innrásin hefði verið í varnarskyni en flestir sagnfræðingar eru sammála um að stríðin hafi verið háð einkum til að styrkja stjórnmálaframa Caesars og afla honum fjár til að greiða niður gríðarmiklar skuldir hans. Samt sem áður er ekki hægt að líta framhjá hernaðarlegu mikilvægi Gallíu fyrir Rómverja, sem höfðu sjálfir mátt þola innrásir keltneskra þjóðflokka, bæði frá Norður-Ítalíu og norðar frá Gallíu. Með sigri í Gallíu gátu Rómverjar treyst náttúruleg landamæri við ána Rín.
Rómverjar höfðu aldrei fleiri en 60.000 hermenn í Gallíu meðan á átökunum stóð. Herstyrkur Galla er óþekktur en giskað hefur verið á að Gallar hafi haft milli 500.000 og 1.000.000 hermenn. Rómverjar misstu tugi þúsunda í átökunum en Gallar misstu hundruð þúsunda auk þess sem hundruð þúsunda voru hneppt í þrældóm.
Stríðunum er lýst í riti Caesars sjálfs Commentarii de Bello Gallico (Athugasemdir um Gallastríðið), sem er mikilvægasta ritaða heimildin um átökin. Ritið er einnig meistaraverk í pólitískum áróðri enda var Caesar afar áhugasamur um að auka vinsældir sínar í Róm.