Geirfinnsmálið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Geirfinnsmálið er kennt við Geirfinn Einarsson (f. 7. september 1942), sem hvarf á dularfullan hátt þann 19. nóvember 1974. Ókunnur maður hafði hringt í hann úr Hafnarbúðinni í Keflavík og mælt sér mót við hann kvöldið sem hann hvarf. Eftir lýsingum vitna var gerð leirstytta af þessum ókunna manni og gekk sú stytta undir nafninu Leirfinnur.
Hópur ungmenna var hnepptur í gæsluvarðhald vegna þessa mannshvarfs og vegna póstsvikamáls og hvarfs Guðmundar Einarssonar. Þau bentu á fjóra þekkta menn sem flestir tengdust skemmtistaðnum Klúbbnum. Voru þeir allir hnepptir í gæsluvarðhald og hafðir í haldi svo mánuðum skipti.
Þýskur rannsóknarforingi á eftirlaunum, Karl Schütz, var fenginn til að stýra rannsókn málsins sem þá var í miklum hnút. Í janúar 1977 lauk svo rannsókn Karl Schütz eftir sviðsetningu atburða við Dráttarbrautina í Keflavík en þar töldu rannsóknarlögreglumenn að Geirfinni hefði verið ráðinn bani.
Ungmennin voru fundin sek og dæmd til fangelsisvistar og hafa afplánað sína refsingu. Geirfinnsmálið hefur verið í umræðu í þjóðfélaginu í tvo áratugi og hefur umræðan síðustu ár færst í að skoða hvað var að í vinnubrögðum lögreglu og rannsókn málsins. Lík Guðmundar og Geirfinns hafa enn ekki fundist.
[breyta] Heimild
- Mál 214. Skoðað 1. mars, 2006.