Jón Ögmundsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jón Ögmundsson, (1052 - 23. apríl 1121), fyrsti biskup á Hólum í Hjaltadal. Jón var sonur hjónanna Ögmunds Þorkelssonar og Þorgerðar Egilsdóttur, en þau bjuggu á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Jón lærði fyrst hjá Ísleifi biskupi Gissurarsyni í Skálholti og hélt svo til frekara náms í Danmörku og Noregi. Hann varð samferða Sæmundi fróða Sigfússyni er þeir komu til landsins að loknu námi ytra.
[breyta] Biskup á Hólum
Jón bjó á Breiðabólstað er hann var tekinn til biskups á Hólum, fyrstur manna. Hafði Gissur biskup Ísleifsson þar hönd í bagga að því er sagt er. Jón fór utan eftir tilnefninguna og hélt til Rómar á fund páfa, sem gaf út skipun um að hann skyldi vígður til biskups. Hann var vígður 29. apríl 1106. Jón gerðist brátt umsvifamikill og lét mjög til sín taka í embættinu. Hann var talinn helgur maður, en hefur þó aldrei verið tekinn í dýrlingatölu af kaþólsku kirkjunni.
[breyta] Ævi
Jón var tvíkvæntur en átti ekki börn. Meðal þess sem frá honum er komið eru íslensku daganöfnin, en hann lét taka upp þau daganöfn, sem enn eru notuð í stað hinna fornu. Jón rak skóla á Hólum og hélt þar erlenda kennara.
[breyta] Heimildir
Biskupasögur
Íslenskar æviskrár, Páll Eggert Ólason, Reykjavík 1950
Íslenskur söguatlas, Iðunn, 1993