Sverð
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sverð er langt og oddmjótt handvopn sem hægt er að beita sem högg- eða lagvopn og hefur verið notað í flestum menningarsamfélögum frá alda öðli. Meginhlutar sverðs eru blað með bakka og egg, ýmist báðum megin (tvíeggjað sverð) eða öðrum megin (eineggjað sverð), og hjöltum sem haldið er um. Tækni við að beita sverði er breytileg eftir menningarsvæðum og lögun sverðsins.
Sverð eru talin hafa þróast út frá hnífum á bronsöld frá því á 2. árþúsundi f.Kr. þegar varð tæknilega mögulegt að móta lengri blöð.
Í ólympískum skylmingum er notast við þrenns konar sverð: höggsverð, stungusverð og lagsverð, en mismunandi keppnisreglur gilda fyrir hvert vopn.