Miklatún
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Miklatún eða Klambratún er útivistarsvæði í Reykjavík. Afmarkast af Rauðarárstíg í vestri, Flókagötu í norðri, Lönguhlíð í austri og Miklubraut í suðri. Klambratún er eldra heiti á svæðinu en er þó enn í notkun. Skrúðgarðurinn er að mestu á jörð bæjarins Klambra sem þar stóð þar til um miðja 20. öld. Reykjavíkurbær eignaðist Klömbrur árið 1946. Tveimur árum síðar var þar hafinn rekstur skólagarða fyrir reykvísk ungmenni.
Á sjöunda áratugnum var Klambratúni breytt í skrúðgarð og hlaut hann nafnið Miklatún að undangenginni nafnasamkeppni.
Kjarvalsstaðir, listasafn helgað list Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals stendur á Miklatúni.
Á sunnanverðu Miklatúni stendur stytta af skáldinu Einari Benediktssyni eftir Ásmund Sveinsson. Þar er einnig brjóstmynd af skáldinu Þorsteini Erlingssyni eftir Ríkharð Jónsson.
Þann 30. júlí 2006 hélt hljómsveitin Sigur Rós stóra tónleika á túninu, talið er að um 20 þúsund manns hafi verið á túninu þegar mest var.