Andrés Önd
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Andrés Önd (enska: Donald (Fauntleroy) Duck) er teiknimynda- og teiknimyndasögupersóna úr smiðju Walt Disney samsteypunnar. Hann er persónugerð önd í svörtum og bláum matrósafötum, með sjóliðahatt. Hann er skapstór og uppstökkur.
[breyta] Byrjun ferilsins
Andrés birtist fyrst í stuttteiknimyndinni the wise little hen árið 1934, en sú mynd var hluti af the Silly Symphonies sem Disney samsteypan gaf út. Það var Dick Lundy sem teiknaði Andrés sem birtist í þættinum sem aukapersóna, en þá var hann slánalegri á að líta en þó auðþekkjanlegur. 1936 var hann endurhannaður og fékk þá nánast á sig núverandi útlit. Í janúar 1937 var hann svo aðalsöguhetja í þætti í fyrsta skipti.
[breyta] Afmælisdagurinn
Til eru nokkrar tillögur að afmælisdegi Andrésar og er engin þeirra „opinber afmælisdagur“ hans.
Í myndinni the three Caballeros sem kom út 1945 er sagt að Andrés eigi afmæli á föstudeginum þrettánda. Þá kemur helst til greina 13. október, en það er sá dagur næst á undan útkomu myndarinnar sem féll á föstudag þrettánda. Í myndinni Donald's Happy Birthday frá 1949 kemur fram að afmælisdagurinn hans hafi verið 13. mars. Núna er dagurinn 9. júní yfirleitt talinn vera afmælisdagur Andrésar, en það er dagurinn þegar fyrsta myndin um hann kom út.
Samkvæmt Don Rosa, einum þekktasta teiknara Disney, er Andrés fæddur árið 1920. (Myndasögurnar (viðfangsefni Don Rosa) eiga að gerast einhvern tíma um 1947-1951.)
[breyta] Frægðin
Andrés Önd er eflaust þekktastur fyrir teiknimyndasögurnar sem byrjuðu snemma en upphaflega voru þær bara fjögurra ramma dagblaðabrandarar eftir Bob Carp og Al Taliaferro sem voru höfundarnir að Andrésínu, kærustunni hans, og Ripp, Rapp og Rupp, litlu frændunum, en frægustu teiknimyndasögurnar um hann eru eftir Carl Barks sem hannaði Andabæ og marga af íbúum hans. Vinsælasti nútímateiknarinn er án efa Don Rosa en hann er þekktur fyrir nákvæm smáatriði í teikningum og mikla þekkingu á viðfangsefninu.