Snið:Gátt:Fornfræði/Inngangur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fornfræði eða klassísk fræði er fræðigrein sem fjallar um sögu, menningu og arfleifð klassískrar menningar Grikkja og Rómverja. Viðfangsefni fornfræðinga eru margvísleg og vinnubrögð þeirra einnig. Innan fornfræðinnar vinna fræðimenn ýmist að sagnfræði, heimspeki, bókmenntasögu eða málvísindum að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina. Einkum er það málakunnátta í forngrísku og latínu, sameiginleg þekking á bókmenntum og öðrum heimildum fornaldar og þjálfun í klassískri textafræði sem sameinar ólíka fornfræðinga.
Tímabilið sem fornfræðin fjallar um nær í grófum dráttum frá um 2000 f.Kr. er hópar grískumælandi fólks streymdu inn í Grikkland, til loka fornaldar um 500 e.Kr. eftir hrun Vestrómverska ríkisins. Fornfræðingar vinna náið saman með fornleifafræðingum einkum í rannsóknum á elsta tímabilinu en einnig á síðari hlutum tímabilsins.
Klassísk fornöld er hugtak sem er notað um grísk-rómverskan tíma, þ.e. fornaldarsögu Grikklands og Rómaveldis. Í sögu Grikklands er sá tími oftast miðaður við árið 776 f.Kr. þegar ólympíuleikarnir voru fyrst haldnir, enda þótt til séu töluvert eldri ritaðar heimildir á grísku. Í sögu Rómar er miðað við hefðbundið ártal fyrir stofnun borgarinnar 753 f.Kr., þrátt fyrir að ritaðar heimildir á latínu séu nokkuð yngri.
Enda þótt deilt sé um hvenær fornöld eigi að teljast lokið er oftast miðað við fall Vestrómverska ríkisins en þá er venjan að miða við árið 476. Í sögu Austrómverska ríkisins mætti ef til vill miða endalok fornaldar við árið 640 en þá féll Alexandría í hendur Aröbum.
Hugtakið klassískur tími er notað bæði um sögu Grikklands og Rómaveldis og vísar þá til þess tíma í klassískri fornöld sem talinn er vera blómatími þessara svæða. Í sögu Grikklands er 5. og 4. öld f.Kr. kallaðar klassískur tími en tímabilið þar á undan kallast snemmgrískur tími; oftast er upphaf klassíska tímans í Grikklandi miðað við Persastríðin, annaðhvort orrustuna við Maraþon eða endalok styrjaldarinnar eftir orrustuna við Plataju, en endalok hans miðast við upphaf hellenísks tíma, sem hófst árið 323 f.Kr. þegar Alexander mikli lést. Í sögu Rómar er klassískur tími venjulega talinn sá tími þegar skrifuð var svonefnd gullaldarlatína. Sá tími er talinn vara frá 80 f.Kr. til 14 e.Kr.