John von Neumann
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
John von Neumann var fæddur sem Neumann Janós í Ungverjalandi 28. desember 1903, og dó í Bandaríkjunum þann 8. febrúar 1957 þar sem hann bjó lengst af ævi sinnar. Hann var stærðfræðingur að mennt, og gerði miklar uppgötvannir á sviði skammtafræðinnar, tölvunarfræðinnar, hagfræðinnar, grúpufræðinnar, og í mörgum öðrum greinum stærðfræðinnar.
Hann var elstur þriggja systkina, og foreldrar hans voru Neumann Miksa, bankastarfsmaður, og Kann Margit. Hann var gyðingur, en iðkaði þau trúarbrögð aldrei. Á ungum aldri sýndi hann mikla minnishæfileika, og gat deilt í átta stafa tölur í huganum þegar hann var sex ára. Árið 1911 gekk hann í lúterskan framhaldsskóla, og árið 1913 keypti faðir hans þýskan titil. Eftir það var hann þekktur sem Janós von Neumann.
John von Neumann fékk doktorsgráðuna sína í stærðfræði frá Budapest háskóla þegar hann var 23 ára. Á árunum 1926 til 1930 starfaði hann sem fyrirlesari í Þýskalandi.
Árið 1930 var honum boðið til Princeton háskóla, og var þar valinn sem einn fjögurra fyrstu starfsmanna í háfræðarannsóknastofnun þar (Institute for Advanced Study). Þar var hann prófessor í stærðfræði frá stofnun deildarinnar árið 1933 þar til hann dó. Í seinni heimstyrjöld hjálpaði hann til við þróun kjarnorkusprengjunnar í Manhattan verkefninu, en rétt fyrir dauða sinn varð hann forstöðumaður bandarísku kjarnorkumálanefndarinnar.
Á árunum 1936 til 1938 var Alan Turing gestur hjá háfræðastofnuninni og lauk þar doktorsprófi undir umsjón von Neumanns. Heimsóknin hófst stuttu eftir útgáfu ritgerðar Turings, „Um reiknanlegar tölur með hagnýtingu í Entscheidungsproblem“ („On Computable Numbers with an Application to the Entscheidungs-problem“ á frummálinu), sem fjallaði um hugmyndafræði og rökræna hönnun altæku vélarinnar.
Von Neumann var upphafsmaður leikjafræðinnar. Einnig skapaði hann Von Neumann arkitektúrinn fyrir tölvur.
Hann lést úr krabbameini í beinum og brisi.