Listasafn Íslands
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Listasafn Íslands er listasafn í eigu íslenska ríkisins sem var stofnað árið 1884 í Kaupmannahöfn af Birni Bjarnarsyni, síðar sýslumanni í Dalasýslu og alþingismanni. Stofninn í listaverkaeign safnsins voru gjafir frá listamönnum, aðallega dönskum, en brátt fóru að berast reglulega gjafir frá íslenskum listamönnum sem urðu kjarninn í eign safnsins.
1916 var listasafnið gert að deild í Þjóðminjasafni Íslands. Safnkosturinn var þá geymdur víðs vegar og lánaður til opinberra stofnana og skóla um allt land, auk þess sem hluti safnkostsins var sýndur í Alþingishúsinu og Safnahúsinu við Hverfisgötu. Með stofnun menntamálaráðs 1928 varð safnið að Listasafni ríkisins og heyrði beint undir ráðið.
1950 er ráðinn fyrsti forstöðumaður safnsins Selma Jónsdóttir og því fenginn staður á efstu hæð nýja hússins sem reist hafði verið yfir Þjóðminjasafnið við Suðurgötu. Þá var safnkosturinn endurheimtur alls staðar að og fékkst að mestu leyti til baka. Með nýjum lögum 1961 varð safnið svo sjálfstæð stofnun sem heyrir beint undir menntamálaráðuneytið.
Listasafnið er nú staðsett í gamla íshúsinu, Fríkirkjuvegi 7, við Tjörnina í Reykjavík. Húsið var hannað af Guðjóni Samúelssyni árið 1916 fyrir fyrirtækið Herðubreið. Síðar hýsti það Framsóknarhúsið og frá 1961 Glaumbæ sem brann 1971. Þá eignaðist listasafnið húsið sem þurfti algerrar endurnýjunar við. Safnið flutti fyrst í húsið árið 1988.
Safnið hefur gert kostunarsamninga við fyrirtæki um ýmis verkefni. 2006 gerðist eignarhaldsfélagið Samson aðalstyrktaraðili safnsins til ársins 2008. Í tengslum við þann samning var ákveðið að fella alveg niður aðgangseyri að safninu.
[breyta] Forstöðumenn Listasafnsins
- Selma Jónsdóttir (1950-1987)
- Bera Nordal (1987-1997)
- Ólafur Kvaran (1997-2007)
- Halldór Björn Runólfsson (2007- )