Alþingi
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslensk stjórnmál Þessi grein er hluti af greinaflokknum: Íslensk stjórnmál |
|
Alþingi er löggjafarþing Íslands sem upphaflega var stofnað árið 930 á Þingvöllum þar sem það kom saman árlega fram til ársins 1799. Alþingi var endurreist í núverandi mynd í Reykjavík árið 1844. Á þinginu sitja fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sem eru kjörnir af henni í beinni og leynilegri kosningu. Alþingi er æðsti handhafi löggjafarvalds á Íslandi og í samræmi við lögmál þingræðis bera ráðherrar ábyrgð gagnvart Alþingi og ríkisstjórnin verður að njóta fylgis eða hlutleysis meirihluta þingheims.
Alþingi kemur saman árlega á fyrsta degi októbermánaðar eða næsta virka degi eftir það og stendur til fyrsta dags októbermánaðar árið eftir ef kjörtímabilinu lýkur ekki í millitíðinni eða þing er rofið, kjörtímabilið er 4 ár. Kosingarétt til Alþingis hafa allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri. Allir þeir sem hafa kosningarétt til þingsins og óflekkað mannorð eru kjörgengir til Alþingis. Þingið starfar í einni deild ólíkt löggjafarþingum margra annara ríkja.
Reglulegur samkomustaður þingsins er í Reykjavík þar sem það hefur aðstöðu í Alþingishúsinu við Austurvöll og fleiri nálægum byggingum. Við sérstakar aðstæður getur Forseti Íslands skipað fyrir um að Alþingi komi saman annarstaðar á landinu.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga
[breyta] Þjóðveldisöld
Alþingi er með elstu starfandi þingum heims. Það var fullstofnað á Þingvöllum árið 930 og var upprunalega í Bláskógum en eigandinn hafði gerst sekur og landið varð almenningseign. Undirbúningur að stofnun þingsins var talinn hafa verið á árunum 920 til 930 en m.a. var maður að nafni Úlfljótur sendur til Noregs til að nema lög en fyrstu lögin eru einmitt skýrð Úlfljótslög eftir honum. Lögin í Hörðulandi í Noregi voru höfð sem fyrirmynd íslenskra laga en þaðan komu einmitt ríkustu bændurnir.
[breyta] Undir erlendum yfirráðum
Alþingi starfaði sem löggjafarsamkoma og æðsti dómstóll landsins þar til á árunum 1262-64 þegar Íslendingar samþykktu Gamla sáttmála og gengu Noregskonungi á hönd. Þá voru nýjar lögbækur lögteknar, Járnsíða árið 1271 og síðan Jónsbók árið 1281 og hlutverk Alþingis breyttist mikið. Löggjafarvald var í höndum konungs og Alþingis sameiginlega, einkum konungs. Dómstörfin urðu aðalverkefni þingsins. Árið 1662 afsöluðu Íslendingar sér svo sjálfstjórn í hendur konungi með Kópavogssamningi. Þinghaldi lauk á Þingvöllum árið 1798, en Lögrétta kom þó saman í Hólavallaskóla í Reykjavík árið 1799 og 1800. Alþingi var lagt af þann 6. júní 1800 en þá fóru nær eingöngu dómstörf þar fram.
[breyta] Endurreisn Alþingis
Danakonungur gaf út tilskipun um endurreisn Alþingis, þann 8. mars 1843 eftir mikla baráttu sjálfsstæðihreyfingarinnar íslensku, Baldvin Einarsson fór þar fremstur í flokki. Fyrstu kosningarnar fóru fram ári síðar og þing kom í fyrsta skipti saman á endurreistu Alþingi þann 1. júlí 1845.
Endurreist Alþingi starfaði fyrst um sinn í Latínuskólanum (nú Menntaskólinn í Reykjavík). Árið 1881 flutti Alþingi svo í sitt núverandi húsnæði í Alþingishúsinu við Austurvöll.
Fyrst um sinn var það þó eingöngu ráðgjafarþing, konungi til ráðuneytis um löggjafarmálefni Íslendinga. Árið 1874 fékk Alþingi löggjafarvald, en konungur hafði synjunarvald og beitti því nokkrum sinnum. Íslendingar fengu svo heimastjórn árið 1904 og þá var þingræði innleitt og Íslendingar fengu ráðherra sem var ábyrgur gagnvart Alþingi. Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Sambandið við Danakonung rofnaði árið 1940, þegar Ísland var hernumið af Bretum, og þann 15. maí 1941 samþykkti Alþingi kosningu ríkisstjóra sem sá um vald konungs en Sveinn Björnsson varð fyrir valinu. Þingið vildi afnema sambandslögin strax en var ráðlagt að bíða með það í um 3 ár í viðbót. Sambandslögin voru svo einróma felld úr gildi 25. febrúar 1944 á Alþingi en þjóðaratkvæðagreiðsla var um málið 20.-23. maí. Sambandslögin voru síðan formlega felld úr gildi 16. júní sama ár og síðan var lýst yfir sjálfstæði Íslands þann 17. júní 1944.
[breyta] Þróun kosningaréttar
Í fyrstu kosningunum til endurreists Alþingis, árið 1844, höfðu kosningarétt karlmenn 25 ára og eldri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um eignir. Það voru um 5% landsmanna. Árið 1903 voru ákvæði rýmkuð um kosningarétt efnaminni manna. Kosningar til Alþingis voru leynilegar frá 1908, en fram að því höfðu þær verið opinberar. Árið 1915 voru skilyrðin um eignir felld niður. Eignalausir verkamenn og vinnumenn til sveita, konur og karlar, fengu samt ekki kosningarrétt fyrr en þau höfðu náð 40 ára aldri. Aldurs mörkin færðust svo niður um eitt ár á hverju ári. Allir fengu réttinn 25 ára árið 1920. Árið 1934 var kosningaréttur lækkaður í 21 ár, aftur í 20 ár árið 1968, og að lokum í 18 ár árið 1984.
[breyta] Kjördæmaskipan og deildaskipting
Árið 1874 var þingi skipt í tvær deildir, efri og neðri deild. Þingmenn voru þá 36 og í efri deild sat þriðjungur þingmanna, eða 12 þingmenn. Sex þeirra voru þjóðkjörnir en sex konungskjörnir. Allir þingmenn í neðri deild voru þjóðkjörnir. Sameiginlegir fundir þingmanna beggja deilda nefndust sameinað Alþingi. Árið 1903 var þingmönnum fjölgað um fjóra og voru þá 40. Við stjórnarskrárbreytingarnar 1915 var konungskjör þingmanna fellt niður og tekið upp landskjör þar sem allt landið var eitt kjördæmi. Landskjörnir þingmenn voru sex, þeir voru kosnir til 12 ára og sátu í efri deild. Árið 1920 var þingmönnum fjölgað í 42 og þá var ákveðið að Alþingi kæmi saman árlega. Árið 1934 var þingmönnum aftur fjölgað, nú um 7 eða í 49. Þá var landskjör einnig fellt niður það ár. 1942 var þeim svo fjölgað í 52. Þá var landið 28 kjördæmi, 21 einmenningskjördæmi, sex tvímenningskjördæmi og Reykjavík sem fékk átta þingmenn. Auk þess voru 11 uppbótarþingmenn. Árið 1959 var landinu skipt upp í átta kjördæmi með hlutfallskosningu auk 11 uppbótarþingsæta. Þingmönnum var aftur fjölgað, nú í 60. Árið 1984 var þingmönnum fjölgað í 63 og árið 1991 voru deildirnar tvær, efri og neðri deild, sameinaðar. Kjördæmaskipan var svo breytt árið 1999 með stjórnarskrárbreytingu og kjördæmunum fækkað í sex, meiri upplýsingar um núverandi kjördæmaskipan er að finna hér. Kosningar til Alþingis fara nú fram á 4 ára fresti, síðast 2003.
[breyta] Samsetning þingsins
Kosningar til Alþingis fóru síðast fram 10. maí 2003 og þær næstu eru áætlaðar vorið 2007 ef ekki kemur til þingrofs í millitíðinni.
Núverandi skipting þingsæta á Alþingi
RN | RS | NV | NA | S | SV | |||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Sjálfstæðisflokkurinn | 4 | 5 | 3 | 2 | 3 | 6 | 231 | |
Samfylkingin | 4 | 4 | 2 | 2 | 4 | 3 | 192 | |
Framsóknarflokkurinn | 2 | 1 | 1 | 4 | 2 | 1 | 113 | |
Vinstrihreyfingin – grænt framboð | 1 | 1 | 1 | 2 | 0 | 0 | 5 | |
Frjálslyndi flokkurinn | 0 | 0 | 3 | 0 | 1 | 1 | 51,2&3 | |
11 | 11 | 10 | 10 | 10 | 11 | 63 |
1Gunnar Örlygsson, kjörinn þingmaður Frjálslynda flokksins, gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn 11. maí 2005. 2Valdimar Leó Friðriksson, gekk úr Samfylkingunni í nóvember 2006, sat fyrst sem óháður þingmaður en gekk svo til liðs við Frjálslynda flokkinn í janúar 2007. 3Kristinn H. Gunnarsson gekk úr Framsóknarflokknum yfir í Frjálslynda í febrúar 2007.